2.5.2006 | 18:25
Iggy Pop á morgun
Þá er hann kominn til Íslands, golfarinn, íhaldsmaðurinn, pönkarinn og rokkarinn, Jemes Newell Osterberg, Iggy Pop sem er auðvitað fyrst og fremst hrár rokkari og kaldur karl eins og sagt var í sveitinni í gamla daga. Hún er löng leiðin frá Anna Arbor, um New York og Max Kansas City klúbbinn, London og Los Angeles að ógleymdri Berlín 1976 með David Bowie.
Og við fáum vonandi að sjá hann í fullu fjöri á morgun, náunga sem aldrei lét segja sér fyrir verkum. Það er fyndið að lagið Lust for Life skyldi vera nota til að auglýsa silgingar Caribbean Cruise skipafélagsins um Karabíska hafið. Lúxussiglingar undir formerkjum rokksins, nú eða pönksins, vilji menn það heldur.
Svalur náungi, en fyrst og fremst góður rokkari.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2006 | 11:49
Van Morrison og Keith kominn úr trjánum
Ég hef verið að hlusta á Van Morrison, Pay the Devil. Hún er í lagi, þótt reyndar megi halda því fram að sveitatónlist sé vart hans sterka hlið, þá er skífan sú yfir meðallagi. Honum til hróss verður það sagt að ekki sitji kappinn auðum höndum. að auki fæst hann við eitthvað nýtt hverju sinni. Ekki staðnar hann.
Stundum mætti halda að við aðdáendurnir sitjum í stað og náum ekki að fylgjast með. What´s Wrong With this Picture? var reyndar þvílíkt snilldarverk að eitthvað hlaut að láta undan tímabundið. Sennilega gera aðdáendur of miklar kröfur til tónlistarmanna.
Reyndar er erfitt að vera sammála Morrisey um að Rolling Stones haldi áfram af þrjóskunni einni saman. Þeir taka sig til og gera nýja hluti og er þá ekki verið að tala um klifur í trjám, heldur A Bigger Bang. Sem betur fer hafa menn mismunandi skoðanir, enda væri lítið gaman væru allir sammála.
Rétt er að renna aftur í gengum djöfulinn (Pay The Devil) og gleðjast yfir því að Keith Richards sé kominn niður úr trjánum og byrjaður að leika á gítar á sjúkrahúsi. Ævinlega er eitthvað að gleðjast yfir komi fólk auga á gleðiefnið. George Ivan Morrison fer vel með sveitaslagarana og Your Cheatin' Heart er bara nokkuð gott, eins og reyndar hin lögins sem batna við hlustun.
Skyldum við nokkurn tíma fá að sjá Van á sviði með Rolling Stones?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2006 | 18:02
Pretty Beat Up og Iggy Pop
Mér hefur orðið tíðhugsað til þessa lags af Rolling Stones skífunni Undercover frá 1983, sem fékk misjafna dóma þá, en þó leynist þar eitt og annað sem hefur elzt vel. Mjög hefur verið rætt um dóma tvo er kveðnir voru upp nýlega í Héraðsdómi Reykjavíkur. Mér verður hugsað til Keith Richards, sem sagður er hafa fallið úr pálmatré á Fiji og reyndar vilja aðrar heimildir meina að hann hafi lent í árekstri á sjóskíðum eða sæketti. Ég óska honum góðs bata og vænti þess að sjá hann í fullu fjöri í Evrópu og að ekki komi til frestunar að Evrópuferðinni að þessu sinni, eins og þegar hann rifbeinsbrotnaði í bókasafninu heima 1998.
En ég gæti tekið undir með honum: ,,I feel pretty beat up" Sennilega hefur dómurinn umdeildi fólgið í sé þau skilaboð að ekki skyldi ráðist á þá sem ætla má að séu minni máttar. Nóg af Pretty Beat Up sem er annars prýðis lag. Mér verður hugsað til Dear Doctor af Beggers Banquet um leið og Keith eru sendar góðar óskir um góðan bata.
Nú styttist í Iggy Pop og það er víst langt síðan hann var Pretty Beat Up, enda búinn að losa sig við fíkniefni og annan óþverra fyrir löngu. Brian vinur minn brezkur, reyndar Skoti, hefur séð hann og heyrt á sviði mörgum sinnum og segir kraftinn ótrúlegan. Þá er til mikils að hlakka.
Það var óneitanlega gaman að heyra í honum hjá Næturverðinum Heiðu á laugardagskvöldið og hún hvatti fólk til að nýta sér tækifærið. Það var rétt hjá Heiðu að eins og er eigum við rokkaðdáendur og tónalistar yfirleitt einstakt tækifæri til að njóta snillinga á heimsmælikvarða, heima á Íslandi. Það tækifæri eigum við að nota.
Rétt í lokin. Iggy sagði þegar hann lék á trommur með The Iguanas heima í Ann Arbor, Michigan um 1965 að það eina sem honum líkaði við brezku innrásina (tónlistar) væri The Rolling Stones og The Kinks. Skýr náungi, taktfastur og góður á trommur að sögn Wayne Kramer úr MC5 og er enn mjög brattur og rokkaður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2006 | 11:47
Iggy Pop á litríkan feril að baki.
Þá styttist í að Iggy Pop mæti til leiks með Stooges. Litli náunginn frá Ann Arbor, var kornungur ástmaður söngkonunnar Nico, sem fræg varð með Velvet Underground á ,,Bananaplötunni" undir verndarvæng Andy Warhol.
Ferill Iggy er nátengdur David Bowie og vilja sumir rýnendur meina að Bowie hafi lært margt af honum, en endurgoldið það þegar þeir unnu saman að plötum hins fyrrnefnda Idiot og Lust For Life í ,,Berlin by the Wall" en þar héldu þeir sig og tóku upp í hinu margfræga Hansa upptökuveri og sömdu China Girl, sem gerði Iggy ríkan þegar það kom út á skífu Bowies Let´s Dance. En nóg um það sagt er að krafturinn í Stooges sé mikill og vissulega eiga fyrstu plöturnar, Stooges og Fun House, sem heitin er eftir verustað Stooges í Ann Arbor um 1970, merkan sess í sögu rokksins. Þær eru hraðar og hráar og við fáum vonandi að heyra lög af þeim, til dæmis I Wanna Be Your Dog, sem Bubbi hljóðritaði, No Fun, Fun House, 1970 og TV Eye og svo Raw Power, Search and Destroy, Gimme Danger og Your Pretty Face is going to Hell. Shake Appeal og Death Trip. allt annað væri bónus.
Sólóskífurnar eru margar, en sennilega halda þeir sig við Stooges efnið, sem er í fínu lagi. Þetta er karftmikið rokk og ekkert gefið eftir og þeir voru betri á sviði en í hljóðveri, þótt ekki sé nú ástæða til að kvarta undan leik þeirra í hljóðverum.
Svo komst ég að því fyrir tilviljun að Politikens Rock Leksikon (Kaupmannahöfn 1995) og Gimme Danger: The Story of Iggy Pop eftir Joe Ambrose, Omnibus Press, 2004 ber ekki saman um fæðingardag James Newell Osterberg. Sú fyrri segir hann fæddan 2. apríl 1947, en hin síðari 21. apríl sama ár. Hvað um það. Hann verður orðinn 59 ára þegar hann mætir á sviðið til að skemmta okkur.
Er það ekki aðalmálið? Og nú lifir hann heilsusamlega, enda ætti enginn að taka líferni hans á yngri árum sér til fyrirmyndar.
Þetta verður góð skemmtun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2006 | 03:46
Sweet Neo Con - Bush, Jagger og Kína
Það er gaman að því, að nú skuli efni bloggsins míns frá því fyrradag vera orðin frétt á Mbl.is. En aftur að Bigger Bang. Þar er eitt laganna Sweet Neo Con og tiltillinn vísar til ,,nýrra" íhaldsmanna, en það eru einmitt stuðningsmenn George W. Bush, sem tapaði ekki bara svítunni fínu á Imperial Hótelinu í Vinarborg í hendur Mick Jagger heldur allri hæðinni í greipar Rolling Stones, sem oftast fara sínu fram og skiptir aldurinn engu í þeim efnum. En þeir létu undan ritskoðun Kínastjórnar á tónleikunum sem haldnir voru í Shanghai 8. apríl s.l og spiluðu ekki dónaleg lög eða fóru öllu heldur ekki með dónalegu textana. Því má svo velta fyrir sér hver laga Rolling Stones séu ekki dónaleg?
Kannski segir þessi litla saga eitthvað um það hvernig valdataumar heimsins eru að umpólast. En Rolling Stones láta sér víst fátt um finnast þótt einhver lög hafi orðið útundan. Tónleikarnir voru óvenju stuttir, aðeins 18 lög og 1:45 í heildina. Sympathy for the Devil var á sínum stað ásamt Satisfaction og Jumping Jack Flash, Paint it Black, You got Me Rocking og Gimme Shelter svo fátt eitt sé talið, að ógleymdu Start me up. Skyldu þeir hafa sungið You can make a dead man come óritskoðað.
Þessi lög hlutu ekki náð fyrir eyrum kínverskra stjórnvalda: "Brown Sugar," "Honky Tonk Woman," "Beast of Burden," and "Let's Spend the Night Together," Almennt er talið að Rough Justice af Bigger Bang hafi þurft að víkja líka. Svo þeir eru enn að senda skilaboð til stjórnmálamanna. Ætli þeim finnist ekki bara gaman að þessu öllu saman, enda þurfti 3 Boeing 747 til að flytja 262 tonn af græjum svo sýningin héldi áfram.
En nú styttist í íhaldssama uppreisnarmanninn og golfleikarann Iggy Pop. Skyldi vera gott fyrir sköpunargáfuna að leika golf?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.4.2006 | 13:53
Jagger fær herbergið en Bush ekki!
Ég mátti til með að koma því á framfæri að Bush Bandaríkjaforseti reyndi að ná herberginu sem Mick Jagger hafði pantað á Imperial hótelinu í Vín í Austurríki, en þar halda Rolling Stones tónleika 20. júní næst komandi. Um svipað leyti verður toppfundur æðstu ríkjastjórnenda í Vín. Menn Bush töldu víst að Sir Jagger myndi láta herbergið, sem gengur undir heitinu Royal Suite í Imperial hótelinu, fúslega af hendi ásamt öllum herbergjunum á hæðinni, sem ætluð eru Rolling Stones. Það kemur ekki til greina að sögn Mick. Herbergið er talið eitt af hundrað beztu í heiminum og kostar 3600 brezk pund á nóttu, samsvarandi 470 þúsund íslenzkum krónum (tæpa hálfa milljón króna).
Það borgar sig greinilega að halda áfram í tónlistinni og reyna sig við eitthvað nýtt. Enda er rétt að taka fram að Bigger Bang skífan frá fyrra ári er mjög góð og í henni sá hljómur sem aðeins heyrist hjá þeim sem bera virðingu fyrir sköpun sinni og leggja rækt við hana.
Pólitíska heimsveldið varð að láta undan hinu tónlistarlega. Og það er ekki oft sem George W. Bush lætur undan.
Þá er að vona að tónleikarnir verði góðir í Vín. Reyndar er ástæðulaust að efast um það eftir það sem ég heyrði, sá og upplifði í Boston í ágúst 2005. Það er ótrúlegt hvað þeir félagarnir í Rolling Stones halda sér vel. Það þarf ekki að vera skrýtið, BB King var að verða 74 ára þegar við Þórdís sáum hann í Royal Albert Hall árið 1999 á afar góðum tónleikum. Sama var þega ég sá og heyrði Chuck Berry á 74. ári í London ári seinna með þeim Jerrry Lee Lewis og Little Richard, sem reyndar áttu allir þátt í skapa grunninn fyrir The Rolling Stones. Skyldu menn ekki læra svona mikið í stjórnmálunum?
Það er nú það, en vonandi eiga bæði Jagger og Bush góðar nætur í Vín
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2006 | 17:20
Ray Davies var frábær, en þetta voru ekki Kinks tónleikar
Það verður að segjast eins og er, að tónleikar Ray Davies í Háskólabíói föstudaginn langa, 14. apríl s.l. voru frábærir. Það var reyndar mjög sérstök upplifun að koma beint á þessa tónleika frá því að taka þátt í lestri Passíusálma Hallgríms Péturssonar í Selfosskirkju, en þar lásum við feðgar, Kjartan T. Ólafsson og bloggarinn sálmana ásamt öðrum góðum mönnum undir forystu séra Gunnars Björnssonar sóknarprests, alla 50, á fjórum og hálfri klukkustund og svo var ekið á löglegum hraða vestur til Reykjavíkur í Háskólabíó til að hlusta á Ray.
Mér þótti vel takast til þótt laus sæti sæjust í salnum. Ray var að kynna hina frábæru sólóskífu sína Other Peoples Lives, sem ég hef grun um að gagnrýnandi Morgunblaðsins Atli Bollason hafi ekki hlustað grannt á eða jafnvel ekki. Hún er mjög góð og textar hans eins og fyrri daginn nokkuð beittir og fjalla um hversdagslega hluti, eins og þeir sem fylgdu lögum Kinks á sjötta áratugnum. En síðan eru meira en 40 ár og ýmislegt hefur breytzt síðan þá, heimsmyndin meðal annars og við verðum að gæta okkar á því að lifa ekki í fortíðinni.
Hljómsveitin var góð og og fór vel bæði með ný og gömul lög. The Kinks verða aldrei eins og þeir voru, sem betur fer, lifni þeir á annað borð. Hvernig hefur enda farið fyrir hljómsveitum sem ætla sér að lifa á fornri frægð? Ákveðinn harður kjarni hlustar á sömu útsetningarnar á sömu gömlu lögunum, sem verða líflaus fyrir vikið, eins og dauf endurgerð af hljómplötum í stað þess að vera lifandi eins og Ray og hljómsveit tókst að gera þau í Háskólabíói. Dæmi um þessa geldu endurvinnslu eru þær tilraunir sem alltaf eru í gangi með Smokie í ýmsum útgáfum og margar endurgerðir the Searchers sem var í miklu uppáhaldi hjá mér þegar ég var barn, og er reyndar enn af hljómplötum. En þessar sveitir gáfust upp fyrir stöðnun sjálfra sín eins og margar aðrar sem ekki verða taldar upp hér. Það verður ekki sagt um Ray Davies sem kannski og vonandi endurvekur Kinks á ný.
Mér fannst dómurinn í Fréttablaðinu mun betri, þótt örlítið skini þar í fýlupoppsstimpillinn úr Moggagagnrýninni. Þó var ljóst að viðhorf stúlkunnar var mun jákvæðara og hún hafði að minnsta kosti hlustað á Líf annars fólks.
Lagalistinn fylgir hér á eftir, en ég saknaði uppáháldslagsins míns með Kinks, Waterloo Sunset og Other Peoples Lives af samnenfdri plötu.
Hvernig halda menn að Rolling Stones væru hefðu þeir haldið áfram að endurvinna sjötta áratuginn? Þeir væru skelfilega leiðinlegir og við hefðu ekki fengið snilldarverk eins og A Bigger Bang, sem út kom á fyrra ári frekar en Other Peoples Lives með Ray Davies. Auðvitað endurtökum við okkur öll, en við getum ekki haldið áfram að gera alltaf það sama alla tíð ella myndi meira að segja endurflutningur á því, sem við hefðum gert bezt og kynnum fyllilega, verða geld vinna, bæði okkur sjálfum og öðrum til leiðinda einna. Ef það er óskin förum við á ball með hljómsveit sem flytur verk annarra og hermir fullkomlega eftir þeim. Myndum við nú, árið 2006, vilja the Beatles a la 1965 Help og Rubber Soul? Ekki fyrir mig takk. Okkur verður öllum að miða fram á veginn. Nóg um það.
Tónleikarnir voru prýðis skemmtun og Ray í miklu stuði og naut sín, var betri en 1970 með Kinks í Laugardalshöllinni. Meira að segja Kinkslögin voru betur flutt núna.
Þetta voru þéttir tónleikar og runnu vel fram, nema í sér íslenzka laginu I´m on an Island, sem var skemmtilega losaralegt en samt þétt, enda æft á hljóðprufunni fyrr um daginn, þótt ég hefði heldur viljað lagið mitt um Terry og Judy á Waterloo stöðinni í London.
Samtals léku þeir í nærri tvo klukkutíma sem var meira en tvöfalt lengur en 1970 (55 mínútur) og tóku sér hlé á milli til bjórdrykkju.
Lagalistinn eins og ég skráði hann fylgir hér með:
Ray hóf tónleikana kl. 19:47 og tók hlé kl. 20:54 og byrjaði eftir hlé kl. 21:18 (24 mín.) og lauk kl. 22:07. Alls lék hann í 1:56 klukkustund. 1. Im Not Like Everybody Else2. Where Have All The Good Times Gone3. After the Fall4. All She Wrote5. Oklahoma USA6. This is where I belong7. Village Green8. Sunny Afternoon9. Dead End Street10. I´m on an Island11. Next Door Neighbour12. Creatures of Little Faith13. Over My Head14. The Tourist15. Till the End of the Day Hlé í 24 mínútur 16. Stand up Comic17. The Morning After18. A Long Way From Home19. The Getaway (Lonesome Train)20. Tired of Waiting21. Set Me Free22. All Day and All of The Night23. Lola24. You Really Got MeAf honum má sjá að af 12 lögum af nýju plötunni voru 9 flutt og 15 Kinks lög. Ekki slæmt heldur mjög gott og ánægjulegt. Enda var það svo við af Kinks kynslóðinni gengum út með bros á vör.
Meira síðar um tónleikanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.4.2006 | 18:54
Fjölmiðlamenn þekkja ekki tónlist Rolling Stones
Í dag byrjaði hin bráðskemmtilega spurningakeppni fjölmiðlanna. Ævar Örn Jósepsson er á réttri leið og tekst að setja fram skemmtilegar spurningar. Það er fagnaðarefni að nota Small Faces aðferðina All or Nothing, allt eða ekkert, og gefa einungis heilt stig fyrir fullt svar, en ella ekkert.
Vinir mínir á BB fyrir vestan stóðu sig með mikilli prýði, en voru eins og flestir fjölmiðlunganna illa að sér um tónlist The Rolling Stones. Kannski gerir það ekkert til, en hljómsveitin er sú langlífasta og þekktasta ef litið er til samfellds ferils í nærri 44 ár og þeir eru enn að. Nú vantar ekki annað en þeir bætist í hóp Íslandsrokkarranna. En Sveinn Guðmarsson fær prik, reyndar tvö fyrir að þekkja lög þeirra og Ríkissjónvarpið bjargaði sér í restina með því að þekkja Let´s Spend the Night Together. Stelpur þið fáið prik fyrir það, en af hverju þekkja menn ekki Jumping Jack Flash og Gimme Shelter?
Nú fer maður að hitna fyrir Ray Davies og því er við að bæta að Gimme Danger, bókin um Iggy Pop er góð skemmtun og gaman að því að strax í upphafi, 1965, heillaðist hann af Rolling Stones og Kinks, vel á minnzt, en leiddist The Beatles. Umhugsunarverður punktur.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2006 | 11:45
Fyrsta bloggfærsla
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
rollingstones.blog.is
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar