Færsluflokkur: Bloggar

Breyttar áherzlur í Eurovision

Fróðlegt verður að fylgjast með næstu Eurovision keppni í Finnlandi. Fyllist allt af þungarokkurum frá Austur-Evrópuþjóðum? Vonandi ekki. Hitt má gjarna gerast að fram komi tónlistarmenn sem þora að víkja frá stöðluðum og gerilsneyddum eftirlíkingum af sigurlögum fyrri ára og áratuga. Bretar reyndu, en Daz blessaður með skólastelpurnar, sem reyndar sungu prýðilega, hafði ekki erindi sem erfiði og sveitatónlist Þjóðverja dugði skammt.

Sylvía Nótt dugði Íslendingum ekki að þessu sinni og fróðlegt verður að sjá hvað til bragðs verður tekið á næsta ári þó ekki væri nema vegna þess að nú erum við eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur sigrað.

Rokkið á að minnsta kosti möguleika og kannski ættum við að senda Mínus eða Geir Ólafsson með sveifluna í anda Frank Sinatra. Já af nógu er að taka í íslenzkum dægurlagaheimi. Geir gæti gert það gott, þótt Evrópa hafi ekki kunnað að meta Björgvin Halldórsson, því miður. Kannski Geir og Mínus kláruðu dæmið saman.


Breyttar áherzlur í Eurovision

Fróðlegt verður að fylgjast með næstu Eurovision keppni í Finnlandi. Fyllist allt af þungarokkurum frá Austur-Evrópuþjóðum? Vonandi ekki. Hitt má gjarna gerast að fram komi tónlistarmenn sem þora að víkja frá stöðluðum og gerilsneyddum eftirlíkingum af sigurlögum fyrri ára og áratuga. Bretar reyndu, en Daz blessaður með skólastelpurnar, sem reyndar sungu prýðilega, hafði ekki erindi sem erfiði og sveitatónlist Þjóðverja dugði skammt.

Sylvía Nótt dugði Íslendingum ekki að þessu sinni og fróðlegt verður að sjá hvað til bragðs verður tekið á næsta ári þó ekki væri nema vegna þess að nú erum við eina Norðurlandaþjóðin sem ekki hefur sigrað.

Rokkið á að minnsta kosti möguleika og kannski ættum við að senda Mínus eða Geir Ólafsson með sveifluna í anda Frank Sinatra. Já af nógu er að taka í íslenzkum dægurlagaheimi. Geir gæti gert það gott, þótt Evrópa hafi ekki kunnað að meta Björgvin Halldórsson, því miður. Kannski Geir og Mínus kláruðu dæmið saman.


Let it Bleed - Nóg blóð í frambjóðendum

Þessi pistill er ekki helgaður tónlistinni einni. Kannski hlusta frambjóðendurnir í Reykjavík á Rolling Stones og hafa meðtekið boðskap þeirrar mögnuðu skífu sem út kom 1969, Let It Bleed, og láta nú blóðið renna til Blóðbankans. Allt gott blóð hraustra manna, karla og kvenna, er vel þegið og vonandi eru þeir allir við góða heilsu frambjóðendurnir sem hyggjast gefa blóð á eftir erfiða kosningabaráttu. Víst er að eftir blóðgjöf líður þeim enn betur.

Ég hef hins vegar enn ekki rekizt á neinn þeirra í Blóðbankanum á mörgum ferðum mínum þangað og hefur þeim fjölgað í seinni tíð. En hér sannast að góðverkin eru ekki flókin. Að gefa af sjálfum sér og það beint frá hjartinu ætti að vera aðalstefnumál allra kosninga. Ekki satt?

Hvað um það. Let It Bleed fer beint á fóninn. ,,We all need somone we can lean on and if you want it baby you can lean on me" (úr laginu Let It Bleed eftir Mick Jagger og Keith Richards) og Blóðbankinn bíður ykkur öll velkomin.

X Blóðbankinn Brosandi


Lordi - til hamingju Finnland

Þetta var reyndar óvenju skemmtileg Eurovsion söngkeppni. Eitt og annað hefur maður upplifað í þessum efnum. Abba voru góð 1974, en Carola var hvorki jafn skemmtileg né sakleysislega falleg, of mikið botox, segir Kolfinna Bjarney, dóttir mín, sem er nýfermd. Rétt er það að minnsta kosti að hrukkurnur voru grunsamlega fáar hjá þessum tveimur sem ætluðu að sigra í keppninni (ekki sigra keppnina, því engin var mér vitanlega að keppa við keppnina heldur tóku keppendur þátt og ætluðu að sigra keppinauta sína). Anna Vissi var hrukkulaus með öllu. Glæsilegt hjá 55 ára gamalli konu, en einhvern veginn fór ég að hugsa um Pétur Pan, þann óhamingjusama mann eða eilífðardreng.

Við sem höfum gaman að rokktónlist erum himinlifandi yfir sigri Lordi og ekki skemmir það að ég samgleðst finnskum vinum mínum, enda mál til komið að Finnar hefðu sigur í þessari margfrægu keppni og vilji maður snúa út úr ambögum nútímans mætti kannski segja með sanni að Lordi hafi ,,sigrað keppnina" því þeir gerðu hið óvænta og að mati Grikkja ómögulega að hafa sigur. Enn og aftur til hamingju Finnar og við öll og óskaplega var gaman að sjá 12 stig frá okkur Íslendingum.

Hrukkurnar sigruðu, jafnvel þótt þær væru tilbúnar. Við eigum okkur uppreisnarvon, hrukkudýrin.

Enn bíð ég spenntur efti batafréttum frá Keith. Verða Rolling Stones klárir í slaginn 8. júní í Horsens?

En kjarni málsins er að Eurovision verður vonandi aldrei sama keppnin og fyrr heldur muni öll vinsæl tónlist eiga sér möguleika Evrópubúum til gleði og ánægju.

Silvía Nótt, spegill nútíma Íslendings hafði að sumu leyti erindi sem erfiði og líkt og þegar Páll Óskar tók þátt mun áhrifa hennar gæta um ókomin ár.

Nú fer ég að hlusta á Savage Rose. Guð blessi minningu Thomas Koppel. Áfram Annisette.

 

 


Keith og heilablæðingin

Enn berast fréttir af Keith Richards. Fyrir þá sem ekki vita er nefndur Keith 62 ára gamall gítarleikari rokksveitarinnar The Rolling Stones, sem flestir kannast við. Keith er sagður hafa dottið úr tré á Fiji eyjum um daginn. Reyndar hafa engar opinberar tilkynningar borizt um tildrög slyssins. Svo fór sem fór, að bora þurfti gat á höfuðkúpu hans til að hleypa út blóði. ,,Too Much Blood" (sjá fyrra blogg).

Keith er sagður á batavegi og Rolling Stones munu halda áfram, en einhverjar tafir verða á byrjun tónleikahalds sem hefjast átti í Barcelona á Spáni 27. þessa mánaðar. Meirihluti fjölskyldunnar, foreldrarnir og helmingurinn af börnunum, ætlar á tónleika með Stones sem settir höfðu verið á 8. júní í Horsens á Jótlandi í gamla sambandsríkinu okkar, Danmörku. Því verður vart trúað að einu sinni enn verði það örlög ritara að missa af eða fresta tónleikasókn í greipar þeirra Stones félaga. En svona er lífið og enn er tónleikahaldaranum, sem ætlar sér flytja sveitina til Íslands kennt um fjarveru þeirra 1998, en þá breyttist tónleikaferðin vegna falls Keith í bókasafninu heima í Connetcut. Hvernig í ósköpunum er það hægt, að kenna Íslendingi um slys rokkarans?

Beztu óskir Keith um góðan bata og varanlega heilsu. Sjáumst heilir í Horsens 8. júní og farðu nú vel með þig eins og móðir mín segir oft við mig. Þangað til hlusta ég á A Bigger Bang og sérstaklega lögin ,,This Place Is Empty", ,,Let Me Down Slow", ,,Biggest Mistake" og She Saw Me Coming". 


Frábær Iggy og Stooges

Það er örugglega rétt að í dag er of seint að hugsa um að sjá Iggy og Stooges í Reykjavík. En það var mikil veizla fyrir eyru og reyndar augu, því gaurinn er mjög svalur og í ótrúlega góðu líkamlegu formi, ekki sízt miðað við að hann er orðinn 59 ára. Stemmingin í Listasafninu var hreint frábær og ótrúlegt hvað fólk var fljótt að taka við sér. Gera verður ráð fyrir því að ekki hafi allir verið miklir aðdáendur, en þeir hörðustu voru að sjálfsögðu fremst og hrukku í gírinn um leið og Iggy hoppað'i inn á sviðið og Stooges hófu að leika Loose af Fun House og síðan Down The Street af sömu plötu laust fyrir kl. 21:30 og síðan var keyrt á fullu í rúmlega 1 klukkustund og 20 mínútur. Næst var haldið í 1969 af Stooges og I Wanna Be Your Dog. Og svo kom TV Eye og Iggy kastaði sér fram í áhorfendaskarann og lét hann bera sig uppi eins og fyrir nærri 40 árum þegar þeir voru að byrja í upphafi ferilsins.

Áhorfendur skiluðu honum upp á sviðið og það var hreint með ólíkindum hve krafturinn var mikill í hljómsveitinni. Þrír hljóðfæraleikarar, gítar, bassi og trommur, engin flúr og engar blúndur en allt á rétt stað. fastur taktur, harður og hraður og lögin ekki slitin í sundur heldur runnu saman, Dirt, Real Cool Time og No Fun og stelpurnar úr áhorfendskaranum upp á sviði. Allt var þetta kunnuglegt frá fyrri tíð, en samt ferskt og skemmtilegt.

Svo komu lögin 1970, Fun House og LA Blues út í eitt, Skull Ring og Rock Star og Not Right, Little Doll og I Wanna Be Your Dog og uppklapp. Svo var þessu lokið og rífandi ánægja meðal þeirra sem fylltu salinn í Listasafninu, sem er reyndar prýðilegur tónleikastaður.

Mér fannst þetta gaman og Þórdísi líka og þeim sem í kringum okkur voru. Allir ánægðir með frammistöðu Stooges. Þetta voru ólíkir tonleikar þeim sem Ray Davies flutti í Háskólabíói, en gleðigjafi. Skrítið að ekki skyldi vera meiri áhugi meðal Íslendinga og þeim mun ánægjulegra að sjá margt ungt fólk og unglinga meðal tónleikagesta og hörðu áðdáendurnir voru himinlifandi.  

Dr. Spock voru góðir, svolítið framandi mér en mikil leikgleði og húmor í því sem þeir gerðu.

RR ehf, sem stóð fyrir tónleikunum á þakkir skilið fyrir framtakið.

Það sem eftir sat var að eina kvöldstund var maður ekki miðaldra heldur unglingur, kannski ekki jafn óþekkur og fyrrum fyrirmyndarnemandinn og sonur kennarahjónanna, James Newell Osterberg, sem lék hlutverki Iggy Pop með glæsibrag eins og við var að búast og í nærri eina og hálfa klukkustund var tíminn án viðmiðunar. Frábært og takk RR ehf. Það er gott að vera ungur, janfvel þótt það sé að verða ungur aftur í skamma stund.


Drífið ykkur á Iggy - á morgun er það of seint

Iggy var svalur í Kastljósinu í gær og lítur ótrúlega vel út, orðinn 59 ára gamall. Nú eiga allir alvöru rokkáhugamenn, karlar jafnt og konur að drífa sig og sjá goðsögnina, sem lifði alla pönkarana og sannaði um leið að áhuginn og krafturinn er það sem skiptir máli í rokkinu jafnt og öðru í lífinu.

Margir líta vel út um sextugt, en oftast þarf að hafa fyrir því og huga að heilsunni, eins og hann gerir nú.

Iggy er ótrúlegur og gáið að því að hann stofnaði Iguanas fyrir 41 ári í Ann Arbor og tveimur árum seinna Stooges. Hljómsveitir hætta ekki, að minnsta kosti ekki séu þær góðar.

Í kvöld verður mikill kraftur og hratt og hrátt rokk.

Drífum okkur öll í kvöld og góða skemmtun.


Blóði dælt úr höfuðkúpu Keith Richards - Too Much Blood

Keith hefur greinilega slasast nokkuð alvarlega við að koma niður úr trjánum. Læknar segja að dæla þurfi blóði úr höfuðkúpu hans, en þar mun það hafa safnast, væntanlega vegna blæðinga af völdum  höfuðhöggs sem hann fékk við ótilgreindar aðstæður, sem þó er venjulega talið að hafi verið fall úr pálmatré á Fiji. Too Much Blood, svo vitnað sé til frægs lags Rolling Stones af Undercover frá 1983. Það er undarlegt hvað Undercover sækir að þessa dagana.

En læknar segja að Keith þurfi ekki að óttast og muni verða í góðu lagi 27 maí þegar Bigger Bang ferðin heldur áfram 27.maí n.k. á Spáni. Hann fær hugheilar óskir um góðan bata.

  


Iggy Pop á morgun

Þá er hann kominn til Íslands, golfarinn, íhaldsmaðurinn, pönkarinn og rokkarinn, Jemes Newell Osterberg, Iggy Pop sem er auðvitað fyrst og fremst hrár rokkari og kaldur karl eins og sagt var í sveitinni í gamla daga. Hún er löng leiðin frá Anna Arbor, um New York og Max Kansas City klúbbinn, London og Los Angeles að ógleymdri Berlín 1976 með David Bowie.

Og við fáum vonandi að sjá hann í fullu fjöri á morgun, náunga sem aldrei lét segja sér fyrir verkum. Það er fyndið að lagið Lust for Life skyldi vera nota til að auglýsa silgingar Caribbean Cruise skipafélagsins um Karabíska hafið. Lúxussiglingar undir formerkjum rokksins, nú eða pönksins, vilji menn það heldur.

Svalur náungi, en fyrst og fremst góður rokkari.


Van Morrison og Keith kominn úr trjánum

Ég hef verið að hlusta á Van Morrison, Pay the Devil. Hún er í lagi, þótt reyndar megi halda því fram að sveitatónlist sé vart hans sterka hlið, þá er skífan sú yfir meðallagi. Honum til hróss verður það sagt að ekki sitji kappinn auðum höndum. að auki fæst hann við eitthvað nýtt hverju sinni. Ekki staðnar hann.

Stundum mætti halda að við aðdáendurnir sitjum í stað og náum ekki að fylgjast með. What´s Wrong With this Picture? var reyndar þvílíkt snilldarverk að eitthvað hlaut að láta undan tímabundið. Sennilega gera aðdáendur of miklar kröfur til tónlistarmanna.

Reyndar er erfitt að vera sammála Morrisey um að Rolling Stones haldi áfram af þrjóskunni einni saman. Þeir taka sig til og gera nýja hluti og er þá ekki verið að tala um klifur í trjám, heldur A Bigger Bang. Sem betur fer hafa menn mismunandi skoðanir, enda væri lítið gaman væru allir sammála.

Rétt er að renna aftur í gengum djöfulinn (Pay The Devil) og gleðjast yfir því að Keith Richards sé kominn niður úr trjánum og byrjaður að leika á gítar á sjúkrahúsi. Ævinlega er eitthvað að gleðjast yfir komi fólk auga á gleðiefnið. George Ivan Morrison fer vel með sveitaslagarana og Your Cheatin' Heart er bara nokkuð gott, eins og reyndar hin lögins sem batna við hlustun.

Skyldum við nokkurn tíma fá að sjá Van á sviði með Rolling Stones?


Næsta síða »

Um bloggið

rollingstones.blog.is

Höfundur

Ólafur Helgi Kjartansson
Ólafur Helgi Kjartansson
Áhugamaður um tónlist, ekki sízt rokk, blús og jafnvel jazz að ógleymdu poppinu og stundum klassískri tónlist fyrri alda.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband